Birna Einarsdóttir viðskiptafræðingur ársins 2013

Birna Einarsdóttir viðskiptafræðingur ársins 2013 fyrir vefFVH hefur valið Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, sem viðskiptafræðing ársins 2013.

Við valið horfði dómnefnd meðal annars til þess að Birna hefur leitt uppbyggingu Íslandsbanka frá endurreisn bankans í lok árs 2008. Mikið hefur mætt á íslenskum bönkunum sem hafa orðið að sníða stakk sinn að gjörbreyttum rekstri, minnka umfang starfseminnar, koma að endurreisn fjölmargra fyrirtækja, verða hluthafar í nokkrum fyrirtækjum í óskyldum rekstri, endurvekja tiltrú á íslenskum verðbréfamarkaði, endurútreikna gengislán, opna á ný fyrir erlendar lántökur íslenskra fjármálafyrirtækja og aðstoða fyrirtæki og einstaklinga við að endurskipuleggja sín fjármál. Það eru því ærin verkefni sem hafa verið á borðinu hjá Birnu undanfarin ár.

Birna hefur verið góður fyrirliði þess liðs sem komið hefur að uppbyggingu Íslandsbanka. Góðir stjórnunarhæfileikar og leiðtogahæfni Birnu hafa komið vel í ljós á þessum erfiðu tímum og ágætur starfsandi hefur myndast innan bankans. Kannanir sýna ítrekað að bæði einstaklingar og fyrirtæki, telja bankann vera í fararbroddi og vera leiðandi í þjónustu í dag.  Afkoma bankans hefur verið góð og hefur fyrirtækið uppskorið árangur þeirra miklu og góðu vinnu starfsmanna sem lögð hefur verið að mörkum á undanförnum árum.

Það er mat dómnefndar að Birna Einarsdóttir sé vel að því komin að vera útnefnd viðskiptafræðingur ársins 2013.

Við val á viðskiptafræðingi eða hagfræðingi ársins er leitað eftir áliti félagsmanna FVH en endanleg ákvörðun er í höndum dómnefndar. Í dómnefnd sátu Örn Valdimarsson, formaður FVH, Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá VÍS, Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, Margrét Guðmundsdóttir forstjóri Icepharma og Jafet Ólafsson, viðskiptafræðingur.

Ölgerðin þekkingarfyrirtæki FVH

fvh_ljosmyndir-1 tilnefndir fyrir vefFélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) hefur valið Ölgerðina sem þekkingarfyrirtæki ársins en Össur, Já og LS Retail voru tilnefnd til verðlaunanna. Hér er rökstuðningur dómnefndar:

Ölgerðin er með einstaklega skýra stefnu og hefur náð eftirtektarverðum árangri í starfsemi sinni. Stefnan endurspeglar mikinn metnað en um leið er stigið varlega til jarðar og þess gætt að fyrirtækið færist ekki of mikið í fang.

Ölgerðin er til fyrirmyndar í stjórnarháttum og fékk t.a.m. jafnlaunavottun VR á sl. ári og vinnur að því að jafna kynjahlutfall innan fyrirtækisins. Könnun á ánægju starfsmanna er framkvæmd fjórum sinnum á ári og hafa niðurstöður verið góðar. Hvað varðar samfélagslega ábyrgð þá er starfandi samfélagsstjóri innan fyrirtækisins sem sinnir málaflokknum. Á síðasta ári voru 100 verkefni tengd samfélagsábyrgð í gangi, m.a. á sviði umhverfismála og samfélagsmála.

Þáttur rannsókna og þróunar hefur verið stór þáttur í starfi Ölgerðarinnar síðastliðin 100 ár og að sögn stjórnenda samofin starfsemi allra deilda fyrirtækisins. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á nýsköpun bæði hvað varðar vöruþróun og innri ferla. Það er eitt af markmiðum fyrirtækisins að ákveðið hlutfall af veltu sé af nýjum vörum.Ölgerðin hefur nýtt sér nýsköpun til að afla nýrra markaða og tekjupósta og má í því sambandi nefna Borg brugghús, Bjórskólann, Vínskólann og þróunarsamvinnu með bakarameisturum á heilsuamlegri á brauðum. Í ljósi breytts neyslumynsturs landans hefur Ölgerðin lagt meiri áherslu á að þróa og markaðssetja vörur sem eru heilsusamlegri t.d. með kolsýrðum vatnsdrykkjum eins og Kristal, og ýmis konar heilsu- og safadrykkjum.

Ölgerðin er jafnframt komin með fingurna í ferðaþjónustu þar sem fyrirtækið tekur í auknum mæli á móti erlendum hópum í vínsmökkun undir yfirskriftinni “taste the saga”.

Þær aðgerðir sem einkum þykja hafa skilað árangri í nýsköpun síðastliðin ár er að Ölgerðin setti sér það markmið að skapa umhverfi sem þorir og vill taka áhættur, viðurkennir mistök og lærir af þeim. Reksturinn hefur breyst nokkuð undanfarin ár einkum við sameiningu Ölgerðarinnar við Danól árið 2008 og varð við það eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði matvælaframleiðslu og innflutnings. Í dag er fyrirtækið í framleiðslu eigin vörumerkja (38%), framleiðslu erlendra vörumerkja (19%) og í innflutningi (43%).

Að öllu framansögðu teljum við fyrirtækið lýsandi dæmi um hvernig nýsköpun getur skilað rótgrónum fyrirtækjum miklum ávinningi og tryggt þeim endurnýjun lífdaga. Fyrirtækið er eins og 100 ára gamall unglingur.

Við val á Þekkingarfyrirtæki ársins er leitað eftir áliti félagsmanna FVH en endanleg ákvörðun er í höndum dómnefndar. Í dómnefnd sátu Dögg Hjaltalín, stjórnarkona í FVH, Valdimar Halldórsson, stjórnarmaður í FVH, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður hjá Opna háskólanum og Ásta Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Sinnum heimaþjónustu. Andri Þór Guðmundsson

Já, Ölgerðin, LS Retail og Össur tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna

Já, Ölgerðin, LS Retail og Össur hafa verið tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna sem afhent verða á Íslenska þekkingardeginum þann 14. mars. Yfirskrift verðlaunanna er: nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum og við valið var haft til hliðsjónar hvernig fyrirtækin hafa nýtt sér nýsköpun við að afla nýrra markaða og/eða nýrra tekjupósta.

Það voru félagsmenn FVH og dómnefnd sem völdu fyrirtækin fjögur, en dómnefndin er skipuð valinkunnum sérfræðingum úr íslensku viðskiptalífi.

Íslensku þekkingarverðlaunin verða afhent hinn 14. mars á Hilton hótel Nordica en dagurinn samanstendur af ráðstefnu milli kl.14-17 þar sem áhersla verður lögð á nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum. Auk þess verða veitt verðlaun til þess viðskiptafræðings eða hagfræðings sem þykir hafa skarað fram úr á liðnu ári. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun afhenda verðlaunin en hann er verndari Íslenska þekkingardagsins.

Nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum – Íslenski þekkingardagurinn 14. mars

FacebookÍslenski þekkingardagurinn verður haldinn þann 14. mars á Hilton hótel Nordica milli kl. 14:00 og 18:00 þar sem nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum verður í brennidepli. Frammámenn í íslenskum fyrirtækjum ræða nýsköpun frá hinum ýmsu hliðum og leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum: hvernig er best að hlúa að nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum, hversu mikilvæg er nýsköpun fyrir fyrirtæki og hvernig er nýsköpun best stýrt innan fyrirtækja?

Frummælendur verða meðal annars Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Erla Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Codland, Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Fundarstjóri er Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Forseti Íslands afhendir svo þekkingarverðlaun FVH fyrir árið 2013. Að þessu sinni eru fjögur fyrirtæki tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna LS Retail, Ölgerðin, Já og Össur en félagsmenn FVH taka þátt í valinu á hverju ári. Þá verður einnig viðskipta- eða hagfræðingur ársins verðlaunaður.

Íslenski þekkingardagurinn verður haldinn á Hilton hótel Nordica þann 14. mars kl.14:00 – 18:00.  Ráðstefnugjaldið er 7.900 fyrir félagsmenn og  13.900 fyrir aðra.

Um fyrirlesara:
Dr. Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Hilmar Bragi hefur í 20 ár verið í forystu rannsókna- og þróunarstarfs Össurar, sem er eitt framsæknasta fyrirtæki í íslensku atvinnulífi og annað af tveimur stærstu fyrirtækjum í heimi á sínu sviði.

Erla Pétursdóttir framkvæmdastjóri Codland er með BA-gráðu í hagfræði og tölvunarfræði frá Macalester College í Minnesota í Bandaríkjunum og hefur undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri hjá Vísi hf.

Andri Þór Guðmundson forstjóri Ölgerðarinnar er viðskiptafræðingur og MBA. Hann var áður framkvæmdastjóri fjármála hjá Ölgerðinni og þar áður markaðsmál hjá Almenna bókafélaginu og Lýsi hf.  Andri situr í stjórn TM, Mjallar-Frigg ehf., Sólar ehf., OA eignarhaldsfélags ehf. og Samtaka iðnaðarins.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sem hann stofnaði árið 1996 og er einn fremsti sérfræðingur heims í erfðarannsóknum.
Þorsteinn Ingi Sigfússon er forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, eðlisfræðingur og prófessor við HÍ og er frumkvöðull á sviði orkurannsókna á Íslandi. Stúdent frá MH 1973, nám í eðlisfræði og stærðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn 1973-1978 og doktorspróf frá háskólanum í Cambridge á Bretlandi 1982. Hefur stofnað mörg sprotafyrirtæki, m.a. Íslenska NýOrku ehf. og sýnt fram á að nota megi vetni til að knýja ökutæki.