Fyrirtækjaheimsókn FVH til Norlandair á Akureyri 29.janúar nk.

norlandair

Flugfélagið Norlandair á Akureyri býður félagsmönnum FVH, og öðrum áhugasömum um fyrirtækið, í heimsókn föstudaginn 29. janúar nk. Gestum gefst þar kostur á að kynna sér starfsemi fyrirtækisins og eiga góða stund saman. Mæting er í andyri byggingar Norlandair kl 16:00 (sunnan við afgreiðsluna á Akuryerarflugvelli, keyrt er inn sama afleggjara og að Flugsafninu).

Arnar Friðriksson, sölu og markaðsstjóri Norlandair mun þá taka á móti okkur og leiða okkur í gegnum fyrirtækið, reifa sögu þess og framtíðaráætlanir. Hann mun svo svara spurningum gesta eftir bestu getu.

Kjörið tækifæri til að kynna sér þetta vaxandi fyrirtæki og eiga skemmtilega stund með félagsmönnum.

Skráning fer fram hér:
Online Form powered by

Hádegisfundur á Akureyri 29.janúar – Fjárfesting í ferðaþjóustu utan höfuðborgarsvæðis

Mikill vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu á Íslandi á undanförnum árum og fjölgar erlendum ferðamönnum með ógnarhraða milli ára. Mikil uppbygging á sér stað í öllum ferðaþjónustutengdum rekstri og vægi ferðaþjónustu verður sífellt mikilvægara fyrir þjóðarbúið.

Dreifing ferðamanna eftir landshlutum er þó mismikil. Vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll umferð ferðamanna allra mest um suðvesturhorn landsins. Ýmislegt hefur verið gert til að jafna þennan mun og beina ferðamannastraumnum markvisst til fleiri landshluta. Aukin áhersla hefur m.a. verið lögð á menningartengda starfsemi og ferðaþjónustu í byggðaþróun. Stofnað hefur verið til margvíslegs klasasamstarfs þar sem eitt af markmiðunum er að efla ímynd og einkenni svæða svo hægt sé að byggja á því árangursríka markaðssetningu. Þrátt fyrir þetta er munurinn á milli landsbyggðanna og höfuðborgarsvæðis ennþá til staðar og ágangur ferðamanna á suðvesturhorninu orðinn það mikill á sumum stöðum að skaði er farinn að hljótast af á meðan áfangastaðir t.d. á Norður- og Austurlandi ráða við töluvert meiri fjölda ferðamanna.

Þann 29.janúar nk. mun Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga halda norður í land þar sem hinn árlegi landsbyggðarfundur verður haldinn í Hofi á Akureyri. Fundurinn er haldinn í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Íslensk Verðbréf. Að þessu sinni er umræðuefni fundarins fjárfesting í ferðaþjónustu á landsbyggðinni með áherslu á Norður- og Austurland. FVH hefur fengið til liðs við sig valinkunna framsögumenn til þess að ræða þetta áhugaverða málefni á hádegisverðarfundi.

Á fundinum verða þrjú 15-20 mínútna erindi og að þeim loknum verða leyfðar spurningar úr sal.

Dagskrá:
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri AFE, inngangur
Hörður Sigurbjarnarson, stofnandi Norðursiglingar á Húsavík – Norðursigling: vettvangur strandmenningar á Íslandi.
Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa
Arna Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Óbyggðaseturs Íslands í Fljótsdal

Fundarstjóri er Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka

Fundurinn fer fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í fundarsalnum Hömrum milli 12:00-13:30 föstudaginn 29.janúar. Þátttökugjald er 1500 kr. fyrir og er léttur hádegisverður innifalinn í verði fundarins.

Lokað hefur verið fyrir skráningu á fundinn, við þökkum frábærar viðtökur!

Vel sóttur fundur FVH um einkavæðingu bankanna

Félag viðskipta- og hagfræðinga hélt hádegisverðarfund á Fosshóteli Reykjavík í dag miðvikudaginn 20. janúar. Efni fundarins var einkavæðing bankanna sem nú stendur fyrir dyrum. Mjög góð mæting var á fundinn – um 115 fundargestir. Gylfi Magnússon dósent við Háskóla Íslands hélt yfirgripserindi um einkavæðingu í u.þ.b. 25 mínútur þar sem hann fór yfir hvaða þætti væri mikilvægast að hafa til hliðsjónar. Í erindi Gylfa kom fram að nauðsynlegt væri að eiginfjárhlutföll banka væru há, jafnvel 20-25%, til þess að koma í veg fyrir að þeir lentu í vandræðum á erfiðum tímum. Jafnframt fjallaði Gylfi um kosti og galla aðskilnaðar á viðskipta- og fjárfestingarstarfsemi og einnig um eigandastefnu, þ.e.a.s. dreift eignarhald og kjölfestueignarhluti. Í máli Gylfa kom fram að vegna stærðar íslensku bankanna þriggja væri ekki raunhæft að lífeyrissjóðirnir gætu verið stórir hluthafar í þeim öllum – það væri of áhættusamt fyrir sjóðina. Gylfi telur að skýr, gagnsæ og vönduð einkavæðingarstefna þurfi að liggja fyrir áður en ríkið hefur sölu á hluta í bönkunum. Hér má lesa grein af Kjarnanum þar sem Gylfi fjallar um þetta mál.

Á fundinn mættu um 115 manns

Á fundinn mættu um 115 manns

Í pallborðsumræðum á eftir erindi Gylfa tóku þátt Salvör Nordal frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Þorsteinn Víglundsson stjórnarformaður Gildis lífeyrissjóðs, Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins og Páll Harðarson frá Kauphöll Íslands. Eva Halldórsdóttir lögmaður var fundarstjóri á fundinum og stýrði pallborðsumræðum. Salvör Nordal ítrekaði mikilvægi þess að vandað yrði til verka við komandi einkavæðingu. Hún sagði að læra þyrfti af mistökunum í einkavæðingunni árin 2002 og 2003 þar sem algerlega skorti á stefnufestu og gagnsæi. Jón Gunnar Jónsson vísaði í að Bankasýslan hefði nýverið gefið út skýrslu til stjórnvalda um einkavæðingaráform, þ.m.t. sölu á hlut í Landsbanka Íslands. Bankasýslan leggur til að ríkið selji allt að 28,2% hlut í Landsbankanum á þessu ári. Páll Harðarson taldi að til langs tíma ætti ríkið að selja alla sína eignarhluti í bönkunum og vísaði til reynslu nágrannalandanna þar sem sala á bönkum væri víða hafin. Páll taldi þó að ríkið ætti að gefa sér þann tíma sem þyrfti til að klára söluna – jafnvel gæti salan tekið mörg ár. Þorsteinn Víglundsson lagði áherslu á að reglur um starfsemi bankanna væru nú þegar mun strangari en áður var og almennt væru fyrirtæki á Íslandi betur fjármagnaðari. Viðskiptaumhverfið væri því betur í stakk búið til að takast á við einkavæðingu en áður og vildi Þorsteinn sjá einkavæðinguna hefjast sem fyrst jafnvel þótt hún kynni að taka langan tíma.

Nokkrar góðar spurningar komu úr sal. Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra benti á að söluandvirði af hugsanlegri sölu á Arion banka væri hluti af stöðugleikaframlagi til ríkisins og því ætti ríkið að flýta sér hægt við einkavæðingu á Landsbankanum til að lenda ekki með einkavæðinguna á sama tíma og söluna á Arion banka. Nokkrar aðrar spurningar komu úr sal, m.a. frá Pétri Einarssyni fv. forstjóra Straums fjárfestingarbanka.
Fundi var slitið um kl 13:10.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá fundinum.

IMG_5881

IMG_5878

IMG_5870

IMG_5861

Hádegisfundur 20.janúar – Einkavæðing bankanna – taka tvö!

Einkavæðing bankanna banner

Á árunum 2002 og 2003 seldi ríkið stærstan hlut sinn í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Í hruninu sex árum síðar féllu bankarnir ásamt bróðurparti íslenska fjármálakerfisins.Sala bankanna og fall þeirra hefur síðan verið ítarlega skoðað og ýmsar spurningar vaknað um hvort rétt og faglega hafi verið staðið að einkavæðingu bankanna. Bankasýsla ríkisins hefur nú tilkynnt að til standi að ríkið selji allt að 30% af eignarhluta sínum í Landsbankanum hf. á árinu og einnig má gera ráð fyrir að ríkið selji af eign sinni í Íslandsbanka hf. á næstu misserum. En hvernig á að standa að sölunni á hlut ríkisins í viðskiptabönkunum? Mun verða lögð áhersla á að fá erlenda banka til að eignast hlut í bönkunum? Hvað má læra af fyrri einkavæðingu bankanna og hvað ber að varast?

Til þess að ræða þetta áhugaverða málefni hefur Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga fengið til liðs við sig Gylfa Magnússon dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands til að kryfja málið á hádegisverðarfundi 20.janúar nk. á Fosshótel Reykjavík. Gylfi mun hefja fundinn á erindi um einkavæðingu bankanna og að erindinu loknu verða pallborðsumræður þar sem aðilar úr viðskiptalífinu munu bregðast við framsögu Gylfa og taka á efni fundarins frá ólíkum sjónarhólum.

Drög að dagskrá:
Staður: Fosshótel, Höfðatorgi
Tímasetning: Miðvikudagurinn 20. janúar 2016, kl 12:00-13:10.
Fundarstjóri: Eva Halldórsdóttir, lögmaður hjá Lögmönnum Lækjargötu
Framsögumaður: Gylfi Magnússon, Háskóli Íslands –  Erindið fjallar um aðferðafræði við einkavæðingu og hvað hægt er að læra af einkavæðingarferlinu 2002-2003.

Umræður í panel þar sem brugðist verður við erindi Gylfa.
– Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins
Þorsteinn Víglundsson, stjórnarformarður Gildis lífeyrissjóðs
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar

Í lok fundar verða spurningar leyfðar úr sal og framsögumaður ásamt þátttakendum í panel verða til svara.

Áætluð fundarlok kl 13:10.
Fundurinn fer fram á Fosshótel Reykjavík, miðvikudaginn 20.janúar, milli 12:00-13:10. Við viljum benda fundargestum á að nýta sér bílastæðahús á Höfðatorgi en þaðan er innangengt inn á Fosshótel Reykjavík. Þátttökugjald er 3.950 kr. fyrir félagsmenn FVH og 5.950 kr. fyrir aðra og er hádegisverður innifalinn í verði fundarins.

Lokað hefur verið fyrir skráningu á fundinn.

Ert þú efni í góðan mentor?

Untitled

Síðastliðna mánuði hefur FVH haldið úti metnaðarfullu kynningarstarfi fyrir unga viðskipta- og hagfræðinga, í þeim tilgangi að efla nýliðun í félaginu og auka þannig breidd og fjölbreytni félagsmanna. Boðið var upp á þrjá fundi í seríunni „Hvernig næ ég í draumadjobbið?“ sem haldnir voru á Kex Hostel. Mæting á fundina fór fram úr björtustu vonum og mættu um 100 manns á síðasta fundinn, auk fjölda sem hafa horft á upptöku af fundinum á netinu.

Í byrjun nýs árs er ætlun félagsins að auka enn virði FVH, bæði fyrir nýja sem og núverandi félagsmenn, með stofnun mentor-verkefnis. Slík verkefni hafa verið framkvæmd með góðum árangri á ýmsum vinnustöðum á Íslandi, en ekki verið áberandi hluti af félagsstarfi líkt og FVH. Pörun reyndari aðila við óreyndari og mentaðarfulla einstaklinga getur skapað virði og gefið báðum aðilum nýja sýn á sitt umhverfi.
Í janúar er áætlað að fara af stað með tilraunaverkefni þar sem stofnað verður til 10-15 mentor-sambanda. Leitum við því til félagsmanna sem hefðu áhuga á að bjóða sig fram sem mentor.

Verkefnið er þannig upp sett að paraðir yrðu saman óreyndari aðili við annan reyndari, og mælst til þess að þeir hittist um það bil einu sinni í mánuði yfir fjögurra mánaða tímabil, t.d yfir hádegisverð. Lögð væru til leiðbeinandi umræðuefni fyrir hvern fund, en þó er vonast til þess að einhverskonar tenging myndist og aðilar ræði það sem þeim er efst í huga hverju sinni.  Umsjónarmaður verkefnisins verður ávallt til taks, og verður reglulega kannað hvernig þátttakendur upplifa prógrammið í þeim tilgangi að læra af og gera betur.

Við hvetjum alla sem telja sig vera efni í góðan mentor og hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu að senda okkur póst á fvh@fvh.is. Einnig viljum við taka fram að ekki er horft til aldurs í þessu samhengi, heldur hvetjum við alla til þess að bjóða sig fram, því þannig er líklegast að réttur mentor finnist fyrir hvern nýliða.

Með von um góðar viðtökur,

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga