Hádegisverðarfundur FVH 30. maí

Hádegisverðarfundur FVH á Nauthól 30. maí sl.

Viðburðurinn var með yfirskriftina: Starfsframi eða stöðnun. Kjör, umhverfi og verkfæri millistjórnenda.

Kjarakönnun 2018 birt, sjá hér og glæný launareiknivél var kynnt.

Andrés Jónsson almannatengill hélt skemmtilegt og fróðlegt erindi um atvinnutækifæri viðskipta- og hagfræðinga.

MYNDIR FRÁ DEGINUM

Aðalfundur FVH verður haldinn fimmtudaginn 31. maí

Aðalfundur Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) verður haldinn fimmtudaginn 31. maí 2018 kl 17:00 í Húsi verslunarinnar (jarðhæð), Kringlunni 7, Reykjavík.
Dagskrá:
1. Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári.
2. Reikningsskil.
3. Breytingar á samþykktum.
4. Kosning stjórnar.
5. Kosning endurskoðanda.
6. Önnur mál.

Framboð til stjórnar FVH verða að hafa borist á netfangið fvh@fvh.is í síðasta lagi þann 24.maí.
Allir félagsmenn eru hjartanlega velkomnir en vinsamlegast tilkynnið þátttöku með tölvupósti á: fvh@fvh.is

Samþykktir FVH uppfært maí 2018

Íslensku þekkingarverðlaunin 2018 – tilnefningar óskast

Íslensku þekkingarverðlaunin 2018 – tilnefningar óskast

Íslensku þekkingarverðlaunin 2018 verða afhent við hátíðlega athöfn í mars næstkomandi.

Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa skarað fram úr með bættu rekstrarumhverfi vegna nýsköpunar í tækni.

Dómnefnd sem skipuð er árlega mun skera úr hver hlýtur verðlaunin í ár og er Forseti Íslands verndari Íslensku þekkingarverðlaunanna.

Við val á þekkingarfyrirtæki ársins 2018 verður horft til þeirra fyrirtækja sem eru leiðandi í stafrænum lausnum og hafa með nýsköpun í tækni bætt rekstrarumhverfi fyrirtækisins. Leitað er eftir fyrirtækjum sem hafa með aukinni sjálfvirkni bætt þjónustu, afköst, nýtingu og/eða framleiðni. Einnig er mikilvægt að fyrirtækin starfi í sátt við samfélagið og séu með ríka umhverfisvitund. Þekkingarverðlaunin í ár hlýtur það fyrirtæki sem þykir standa sig best á þessum sviðum.

Nokkrir heppnir þátttakendur sem senda tilnefningar til dómnefndar fyrir 1. febrúar nk. hljóta skemmtilega bókagjöf frá Sölku bókaútgáfu.

 

SMELLTU HÉR FYRIR TILNEFNINGAR

FVH leitar að nýjum framkvæmdastjóra

Félag viðskipta- og hagfræðinga (FVH) auglýsir eftir framkvæmdastjóra í 50% stöðu. FVH er fagfélag háskólamenntaðs fólks á sviði viðskipta- og hagfræða.

Framkvæmdastjóri heldur utan um fjármál og félagatal, sinnir kynningar- og markaðsstarfi, skipuleggur viðburði og sinnir daglegum rekstri út frá leiðsögn stjórnar félagsins.

Hæfniskröfur:
• Háskólapróf í viðskiptafræði eða hagfræði
• Reynsla af markaðsmálum og skipulagningu viðburða
• Þekking á upplýsingatækni fyrir vefsíðu, samfélagsmiðla og póstútsendingakerfi
• Gott vald á rituðu máli
• Agi, sjálfstæð vinnubrögð og skipulagshæfileikar

Umsóknarfrestur er til 25. júní og æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Umsóknir og ferilskrá óskast sendar á fvh@fvh.is. Nánari upplýsingar gefur Dögg Hjaltalín, formaður stjórnar FVH í síma 899-0645.

Aðalfundur FVH 30.maí nk

Aðalfundur Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) verður haldinn þriðjudaginn 30. maí 2017, kl 17:00 í Húsi verslunarinnar (jarðhæð), Kringlunni 7, Reykjavík.

Dagskrá:
1. Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári
2. Reikningsskil
3. Kosning stjórnar
4. Kosning endurskoðenda
5. Önnur mál

Framboð til stjórnar FVH verða að hafa borist á netfangið fvh@fvh.is í síðasta lagi þann 25.maí.

Allir félagsmenn eru hjartanlega velkomnir en vinsamlegast tilkynnið þátttöku með tölvupósti á fvh@fvh.is

Íslensku þekkingarverðlaunin afhent og hagfræðingur ársins heiðraður

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) verðlaunaði þekkingarfyrirtæki ársins og hagfræðing ársins við hátíðlega athöfn í gær. Verðlaunin eru veitt árlega en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin að þessu sinni. Þema þekkingarverðlaunanna í ár var „fagmennska og færni í ferðaþjónustu“ . Þrjú fyrirtæki voru tilnefnd af sérstakri dómnefnd sem FVH skipaði og var Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands formaður hennar. Þau þrjú fyrirtæki sem hlutu tilnefningu til verðlaunanna voru Bláa lónið, Norðursigling ogÍslenskir fjallaleiðsögumenn en Bláa lónið hlaut að þessu sinni þekkingarverðlaunin fyrir afar mentaðarfullt starf.

Guðni Th. Jóhannesson veitti verðlaunin fyrir hönd FVH og ræddi hann aðeins ferðaþjónustuna á Íslandi sem hann sagði standa á tímamótum. Hann vildi þó meina að útlitið væri kannski ekki alveg eins svart og það sýndist oft í fréttum og fyrirsögnum og sagði „þetta er alltaf sama gamla sagan, við þurfum vissulega að vera á varðbergi en passa okkur þó að taka ekki einhverjar róttækar ákvarðanir sem eru byggðar á svörtustu sýninni“.

Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, var valinn hagfræðingur ársins en stjórn FVH valdi hagfræðing ársins úr tilnefningum frá félagsmönnum. Sölvi er kannski flestum kunnur sem Sölvi úr Quarashi en hann hefur unnið ötult starf um árabil hjá Gamma. Við móttöku verðlaunanna sagði Sölvi að hann hefði sjálfur aldrei trúað því fyrir 10 árum að hann myndi taka við verðlaunum sem hagfræðingur ársins, þar sem öll þau verðlaun sem hann hafi tekið við hingað til hefðu verið vegna tónlistarinnar. Sölvi hamraði svo á því að hagfræðingar væru mikilvægir fyrir samfélagið og sagði að stéttin þyrfti að vera dugleg að tjá sig opinberlega og segja frá niðurstöðum sinna greininga þó svo að þær ættu ekki alltaf uppá pallborðið og það geti verið erfitt að tala á móti straumnum. „Hagfræðin er lykillinn í því að taka góðar ákvarðanir hvort sem það er fyrir einstaklinga eða okkur öll sem heild“ -segir Sölvi.

Hér fyrir neðan má lesa rökstuðning dómnefndanna, annars vegar fyrir Þekkingarfyrirtæki ársins og hins vegar hagfræðing ársins.

Rökstuðningur dómnefndar – Hagfræðingur ársins
Sölvi lauk B.Sc. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands með áherslu á verðmyndun á fasteignamarkaði. Sölvi lauk síðan M.Sc. prófi í hagfræði frá háskólanum í Stokkhólmi árið 2010. Á árunum 2010-2011 stundaði Sölvi rannsóknir á fasteignaverði í Stokkhólmi og frá febrúar 2012 hefur Sölvi haft doktorsstöðu við Háskólann í Stokhólmi með rannsóknir á fjármála og fasteignabólum í Skandinavíu sem viðfangsefni.
Sölvi Blöndal hefur um árabil starfað sem hagfræðingur hjá Gamma og hefur hann yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum fasteignamarkaði og hefur verið stefnumótandi hjá því fyrirtæki.
Um mitt síðasta ár festi Sölvi sig rækilega í sessi á íslenskum tónlistarmarkaði þegar hann stofnaði Öldu, nýtt útgáfufyrirtæki sem tók yfir tónlistarhluta Senu og hefur síðan fengið til sín stór nöfn í íslenskri tónlist og er hann því mjög áhrifamikill í íslensku tónlistarlífi.
Sölvi situr einnig í stjórn E7 sem starfrækir 23 hljóðver með mörgum af helstu tónlistarmönnum og framleiðsluaðilum landsins. Reynslan af E7 hefur sýnt að samlegðaráhrif hafa haft afar jákvæð áhrif, einkum þegar um frumkvöðlastarfsemi er að ræða. Starfsemin á E7 er sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi.
Að auki hefur Sölvi átt glæstan tónlistarferil og kom hann Quarashi upp á stjörnuhimininn um víða veröld og hefur sú hljómsveit átt eftirtektarverða endurkomu undanfarin ár.
Það verður áhugavert að sjá Sölva koma enn sterkar inn með kraft og nýjar nálganir í tónlistariðnaðinn á Íslandi.

Rökstuðningur dómnefndar – Þekkingarfyrirtæki ársins
Til grundvallar vali á þekkingarfyrirtæki ársins á sviði ferðaþjónustu setti dómnefnd fram nokkra matsþætti og greindi fyrirtæki eftir því hversu vel þau uppfylltu eða höfðu tileinkað sér þá þætti. Það sem vó mest í mati dómnefndar voru markviss miðlun þekkingar til starfsmanna og gesta, gæðamál, fagmennska, stefna í umhverfismálum auk samfélagslegrar ábyrgðar í því nærumhverfi sem fyrirtækin starfa.
Upphaflega voru öll ferðaþjónustufyrirtæki á landinu undir. Síðan greindi dómnefnd ítarlega 20 þeirra eftir þeim matsþáttum sem hún hafði skilgreint. Þau fimm fyrirtæki sem komu best út úr því mati voru síðan heimsótt sérstaklega og fór dómnefndin vítt og breitt um landið í því skyni. Að því loknu voru þrjú fyrirtækjanna tilnefnd formlega og að lokum var eitt þekkingarfyrirtæki ársins valið úr þeim hópi en það var Bláa lónið.
Þekkingarfyrirtæki ársins hefur verið brautryðjandi á mörgum sviðum og þá sérstaklega þegar kemur að miðlun þekkingar og þjálfun starfsmanna. Hjá fyrirtækinu starfa í dag hátt í 600 manns af 26 þjóðernum og til stendur að ráða 165 nýja starfsmenn á næstunni. Þjálfun og eftirfylgni við starfsmenn er því eðlilega stór og mikilvægur þáttur í allri starfsemi Bláa lónsins. Til þess að hámarka upplýsingaflæði og innri samskipti hefur fyrirtækið tekið upp samskiptakerfið Workplace til innri upplýsingamiðlunar. Í hraðri uppbyggingu og stöðugum breytingum er mikilvægt að allir gangi í takt og er því mikilvægt að upplýsingar komist hratt og örugglega til skila. Markmið Bláa lónsins er að starfsmenn fái tækifæri til að vaxa með fyrirtækinu og eru starfsmenn hvattir áfram til náms, ýmist sem hægt er að stunda á staðnum eða fara til útlanda í þjálfun ef svo ber undir. Þannig hefur fyrirtækið lagt kapp á að byggja upp vinnustað sem samanstendur af öflugri liðsheild og stoltum starfsmönnum. Þetta hefur fyrirtækið mælt reglulega auk annarra þátta sem það hefur nýtt til að bæta reksturinn og umhverfið sitt.
Bláa lónið hefur skýra og metnaðarfulla stefnu á sviði gæða-, umhverfis- og öryggismála og heldur úti reglulegum æfingum með öllum helstu viðbragðsaðilum. Þá er fyrirtækið með nokkrar vottanir og er þátttakandi í gæðakerfum s.s Vakanum, ISO 9001, Bláfána, food safety esmiley og HACCP, svo einhver þeirra séu nefnd.
Samfélagsábyrgð er þekkingafyrirtæki ársins hugleikin og hefur það markvisst ásett sér að vera þátttakandi í þeim verkefnum sem stuðla að þróun, uppbyggingu, aukinni þekkingu og gæðum í ferðaþjónustu. Þannig er fyrirtækið ýmist bakhjarl, styrktaraðili, stofnandi eða þátttakandi í ýmsum mikilvægum verkefnum s.s Startup Tourism, Safetravel, Íslenska ferðaklasanum, Ábyrgri ferðaþjónustu og er aðili að Samtökum ferðaþjónustunnar.
Á síðustu árum hefur þekkingafyrirtæki ársins vaxið hratt og hafa því fylgt nýjar áskoranir sem hafa kallað á þróun nýrra lausna sem krefjast hugkvæmni og þekkingar. Starfsmenn Bláa lónsins þróuðu t.d. aðgangsstýringakerfi sem jafnar álag gesta að áfangastaðnum og bætir þar með nýtingu rekstarfjármuna og mannauðs. Að auki er stunduð öflug vöruþróun bæði í heilsuvörum og matvælum en fjórir vísindamenn starfa hjá fyrirtækinu við að hámarka verðmætasköpum úr aukaafurðum sem falla til í framleiðslunni s.s úr þörungum og kísil sem ætlað er að bæta heilsu manna.
Með ofangreindan rökstuðning að leiðarljósi var það einróma álit dómnefndar að tilnefna Bláa lónið sem þekkingafyrirtæki ársins.

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid


Sölvi Blöndal, hagfræðingur ársins

Forsetinn ásamt tilnefndum og verðlaunahöfum

Íslensku þekkingarverðlaunin – 25.apríl

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga stendur fyrir vali á þekkingarfyrirtæki ársins og viðskipta-/hagfræðingi ársins á hverju ári og verða verðlaunin afhent á Íslenska þekkingardeginum á Fosshótel Reykjavík þann 25.apríl nk. frá kl.16:00-18:00. Að þessu sinni er þema þekkingarverðlaunanna „Fagmennska og færni í ferðaþjónustu“ og verður það fyrirtæki eða stofnun sem þykir hafa skarað fram úr verðlaunað. Einnig verður viðskipta- eða hagfræðingur ársins heiðraður.

Félagið sendi á dögunum út könnun í gegnum póstlista félagsins þar sem óskað var eftir tilnefningum til þekkingarverðlaunanna og viðskipta-/hagfræðings ársins en skipaðar voru tvær dómnefndir til að skera endanlega úr um hverjir hlytu verðlaunin í ár. Í dómnefndunum sátu að þessu sinni:

Þekkingarfyrirtæki ársins
Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ.
Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaklasans
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups
Sverrir Sigursveinsson, viðskiptafræðingur og stjórnarmaður í FVH.

Að þessi sinni eru þrjú fyrirtæki tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna en það eru Norðursigling, Bláa lónið og Íslenskir fjallaleiðsögumenn.

Á Þekkingardeginum verður haldin stutt móttaka þar sem þau fyrirtækin sem tilnefnd eru kynna starfsemi sína. Forseti Ísland, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir þekkingarverðlaunin og heiðrar viðskiptafræðing eða hagfræðing ársins. Þá munu formenn dómnefndanna tilkynna og færa rök fyrir niðurstöðum sínum. Athöfninni lýkur síðan með samkomu undir ljúfum tónum og léttum veitingum.

Frítt er inn á viðburðinn fyrir alla en við biðjum þá sem ætla sér að mæta að skrá sig hér:

Online Form powered by

Fundur felldur niður – Stjórnun teyma til árangurs í nýsköpun – Hádegisfundur með Opna Háskólanum í Reykjavík 24.apríl

Stjórnun teyma til árangurs í nýsköpun – Hádegisfundur með Opna háskólanum í Reykjavík.

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga og Opni háskólinn í HR standa fyrir hádegisverðarfundi 24.april nk. þar sem kynnt verður námskeiðið Stjórnun teyma til árangurs í nýsköun. Á fundinum mun leiðbeinandi námskeiðsins, Ragnheiður H. Magnúsdóttir fara í fljótu bragði yfir námskeiðið og ræða stjórnun teyma í Nýsköpun.

Ragnheiður er vélaverkfræðingur og með meistaragráðu í framleiðsluverkfræði frá Álaborgarháskóla. Áður en hún hóf störf hjá Marel starfaði hún sem framkvæmdarstjóri Hugsmiðjunnar í sex ár. Ragnheiður er formaður tækninefndar Vísinda-og tækniráðs.

Eftir erindi Ragnheiðar mun reynslubolti úr atvinnulífinu ræða um stjórnun nýsköpunarteyma út frá eigin reynslu og verkefnum. Guðfinnur Sveinsson ráðgjafi í stjórnun og teymisvinnu ætlar að flytja stutt erindi um sína reynslu af teymisvinnu en hann starfaði hjá Plain vanilla áður og er nú sjálfstæður ráðgjafi en hans helstu kúnnar eru WOW air, Tempo og Lykill.

Skráning fer fram hér að neðan.

Fundurinn var feldur niður þar sem lágmarks skráning náðist ekki.

                                                  
    

Gjaldtaka í ferðaþjónustu – hvaða leið er skynsamlegust? Hádegisfundur FVH 22.mars

Gjaldtaka banner

Á síðustu árum hefur erlendum ferðamönnum á Íslandi fjölgað gífurlega hratt og samhliða hefur mikil uppbygging átt sér stað í starfsemi tengdri ferðaþjónustu. Vaxtarverkir eru þó til staðar og má þar einna helst nefna ójafna dreifingu ferðamannastraumsins, aukið álag á innviði og þann kostnað sem því fylgir.

Gjaldtaka hefur verið nefnd sem möguleg lausn við þessum vandamálum, en umdeilt er hvaða leið sé skynsamlegust í þeim efnum. Félag viðskipta- og hagfræðinga mun fjalla um þetta álitamál út frá sjónarhóli hagfræðinnar. Hvaða hagrænu áhrif hafa ólíkar gjaldtökuleiðir? Og hvaða leið er best til þess fallin að tryggja farsæla framtíð íslenskrar ferðaþjónstu?

Dagskrá
Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans og fundarstjóri opnar fundinn
Daði Már Kristófersson forseti félagsvísindasviðs HÍ heldur erindi um mismunandi leiðir til gjaldtöku

Að erindi Daða loknu verða spurningar leyfðar úr sal og framsögumaður ásamt þátttakendum í panel verða til svara. Í pallborðinu sitja auk Daða:

Ólafur Örn Haraldsson – Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum
Rannveig Grétarsdóttir – Framkvæmdastjóri Eldingar
Anna Dóra Sæþórsdóttir – prófessor í ferðamálafræði við HÍ

Fundurinn fer fram á Grand hótel Reykjavík – fundarsalnum Setri, miðvikudaginn 22.mars, milli 12:00-13:15 og er öllum opinn. Þátttökugjald er 2.950 kr. fyrir félagsmenn FVH og 4.950 kr. fyrir aðra og er léttur hádegisverður innifalinn í verði fundarins.

Skráning á fundinn fer fram hér!

ATH! Ef vandamál koma upp með skráningu má skrá sig á fvh@fvh.is

Uppbygging nýrra áfangastaða – árlegur landsbyggðarfundur FVH á Akureyri 10.feb

Uppbygging nýrra áfangastaða m. logos

Á síðustu árum hefur erlendum ferðamönnum á Íslandi fjölgað gífurlega hratt og í kjölfar þess er gróska í allri ferðaþjónustu mikil. Mikil uppbygging hefur átt sér stað um allt land í ferðaþjónustutengdum rekstri þó svo dreifing ferðamanna milli landshluta sé ansi ójöfn. Margt hefur verið reynt til að jafna fjölda ferðamanna og beina þeim lengra út á land t.d. á Norður – og Austurland, s.s. ýmiskonar klasasamstarf, menningartengd starsemi og áhersla á ferðaþjónustu í byggðaþróun.  Uppbygging nýrra áfangastaða er eitt lykilatriðanna í því að fá ferðamennina út fyrir álagssvæðin á suðvesturhorni landsins en það getur verið flókið ferli sem krefst samvinnu margra aðila.
Þann 10.febrúar nk. mun Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga halda norður í land þar sem hinn árlegi landsbyggðarfundur verður haldinn í Hofi á Akureyri. Fundurinn er haldinn í samstarfi við Flugfélag Íslands og Atvinuþróunarfélag Eyjafjarðar. Að þessu sinni er umræðuefni fundarins Uppbygging nýrra áfangastaða. FVH hefur fengið til liðs við sig valinkunna framsögumenn til þess að ræða þetta áhugaverða málefni á hádegisverðarfundi.
Á fundinum verða þrjú 15-20 mínútna erindi og að þeim loknum munu framsögumenn svara spurningum fundargesta og -stjóra.

Dagskrá:
Gósk

Guðmundur Óskarsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands – Beint flug milli KEF og AK

Lóa

 

 

 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forstjóri Gray Line – Er allt að fara til fjandans eða eru enn tækifæri í ferðaþjónustu?

Róbert G

 

Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði – “Hið heimska fjármagn – hjarðhegðun og skammtímahyggja”

hilda jana

 

 

Fundarstjóri er Hilda Jana Gísladóttir, framkvæmda- og sjónvarpsstjóri á N4

 

arnor_thorir_sigfussonKristján

Eiríkur

 

 

Auk framsögumanna munu þeir Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarsjóri á Akureyri, Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri á Húsavík og Arnór Þ. Sigfússon, framkv.stj. Sannra landvætta taka þátt í pallborðsumræðum.

Fundurinn fer fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í fundarsalnum Hömrum milli kl.12:00-13:30 föstudaginn 10.febrúar.Þátttökugjald er 2000kr. og er léttur hádegisverður innifalinn í verði fundarins. Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn hér neðst á síðunni!

Skráningu á fundinn hefur verið lokað. Við þökkum frábærar viðtökur!