Go to Top

Lög Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga

1. gr.
Félagið heitir ,,Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga“ og hefur aðsetur sitt í Reykjavík.

2. gr.
Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, FVH, er fagfélag háskólamenntaðs fólks á sviði viðskiptafræði og hagfræði á Íslandi.

Hlutverk félagsins er:
1. Að efla hagnýta menntun og rannsóknir í viðskiptafræði, hagfræði og skyldum fræðigreinum á Íslandi.
2. Að stuðla að því að félagsmenn og aðrir áhugamenn um þessi fræði njóti fræðslu og endurmenntunar.
3. Að kynna menntun félagsmanna og efla ímynd þeirra.
4. Að veita félagsmönnum hagnýtar upplýsingar og ráðgjöf um málefni sem snerta kjör þeirra og starfsframa.
5. Að efla kynni og tengsl félagsmanna.
6. Að stuðla að því að félagsmenn virði siðareglur FVH.

3. gr.
Félagsmaður getur hver sá orðið, sem lokið hefur burtfararprófi frá viðurkenndum háskóla í hagfræði eða viðskiptafræði. Stjórn félagsins tekur ákvörðun um inntöku nýrra félagsmanna.
Stjórn félagsins er heimilt að veita inntöku sem aukafélögum öðrum en þeim sem að ofan greinir. Aukafélagar hafa rétt til setu á almennum félagsfundum en eru án atkvæðisréttar.

4. gr.
Stjórn félagsins getur kjörið heiðursfélaga menn, sem leyst hafa af hendi mikilsverð störf á sviði hagvísi eða unnið sérlega mikil störf fyrir félagið.

5. gr.
Stjórn félagsins getur vikið manni úr félaginu, ef henni þykja efni standa til, en borið getur hann mál sitt undir almennan félagsfund.

6. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Skal hann haldinn ekki síðar en í maí ár hvert. Aðalfund skal boða skriflega með bréfi eða tölvupósti með 7 daga fyrirvara hið skemmsta og auglýsa jafnframt í blöðum eða á annan tryggilegan hátt. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og ræður afl atkvæða úrslitum mála nema annars sé getið í lögum þessum. Atkvæðisrétt hafa skuldlausir félagsmenn.

7. gr.
Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:
1. Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári.
2. Reikningsskil.
3. Lagabreytingar.
4. Kosning stjórnar.
5. Kosning endurskoðenda.
6. Önnur mál.

8. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð tíu mönnum. Hver stjórnarmaður skal kjörinn sérstaklega með bundinni kosningu til tveggja ára í senn í eftirfarandi röð:

1. Formaður.
2. Varaformaður.
3. Gjaldkeri.
4. Formaður kjaranefndar.
5. Formaður fræðslunefndar.
6. Formaður ritnefndar.
7. Meðstjórnandi.
8. Fulltrúi landsbyggðar.
9. Fulltrúi hagfræðinga.
10. Fulltrúi samstarfsaðila.

Kosningar skulu vera skriflegar sé þess óskað. Eigi má kjósa sama mann til formennsku nema 2 kjörtímabil í senn.

9. gr.
Á aðalfundi skal kjósa tvo endurskoðendur með bundinni kosningu og skal kosning fara fram skriflega, sé þess óskað.

10. gr.
Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess.

Stjórn félagsins ákveður félagsgjöld hverju sinni í upphafi starfsárs og skulu þau greidd eigi síðar en 1. nóvember ár hvert.

Gerðir stjórnarinnar skulu bókaðar.

11. gr.
Innan félagsins skulu starfa þrjár fastanefndir:

1. Kjaranefnd. Hlutverk nefndarinnar er að safna upplýsingum um launa- og starfskjör félagsmanna, gera tillögur um aðgerðir í kjaramálum og vera stjórninni til ráðuneytis um þessi mál. Formaður nefndarinnar er kjörinn sérstaklega á aðalfundi (sbr. 8. gr.) en stjórn félagsins skipar í upphafi starfsárs 4 aðra félagsmenn í nefndina.

2. Fræðslunefnd. Hlutverk nefndarinnar er að hafa umsjón með aðgerðum til að efla menntun félagsmanna og hagvísindi almennt. Formaður nefndarinnar er kjörinn sérstaklega á aðalfundi (sbr. 8. gr.) en stjórn félagsins skipar í upphafi starfsárs 4 aðra félagsmenn í nefndina.

3. Ritnefnd. Hlutverk nefndarinnar er að hafa umsjón með útgáfu fréttablaðs félagsins, Hags. Formaður nefndarinnar er ritari félagsins, en að auki skal stjórn félagsins skipa 3 aðra félagsmenn í nefndina, í upphafi starfsárs.

12. gr.
Stjórn félagsins er heimilt að stofna til annarra nefnda en að ofan greinir og jafnframt að fela fastanefndunum sérstök verkefni önnur en greinir í 11. gr.

13. gr.
Reikningsár félagsins er frá 1. apríl til 31. mars.

14. gr.
Innan félagsins er heimilt að stofna deildir samkvæmt samkomulagi við stjórn félagsins. Fulltrúar deilda eru kjörnir sérstaklega á aðalfundi (sbr. 8. gr.).

15. gr.
Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins og skal í fundarboði geta þeirra breytinga sem bera á upp. Til þess að lagabreytingar nái fram að ganga þarf 2/3 greiddra atkvæða.