Go to Top

Lög um rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga

Starfsheitið viðskiptafræðingur og hagfræðingur er lögverndað!

Þeir sem lokið hafa námi, hvort heldur BS/BA eða MS/MA, frá erlendum háskólum þurfa að sækja um heimild til að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing.
Viðskiptafræðingum og hagfræðingum hefur fjölgað mikið hin síðari ár en Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) er fagfélag þessa hóps. Ekki mega allir kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing þar sem starfsheitið er lögverndað. Fjöldi fólks með prófgráður erlendis frá má ekki kalla sig viðskipta- eða hagfræðinga skv. lögum um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga nr. 27/1981 nema hafa fengið til þess leyfi.

Samkvæmt fyrrnefndum lögum hafa þeir menn hér á landi sem hafa til þess leyfi viðskiptaráðherra rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga, hagfræðinga eða nota heiti sem felur í sér orðið viðskiptafræðingur eða hagfræðingur. Þeir sem lokið hafa BS- eða cand.oecon prófi frá viðskiptadeild, BS-prófi frá hagfræði­deild viðurkennds íslensks háskóla eða meistaranámi úr framangreindum deildum þurfa ekki slíkt leyfi ráðherra sbr. lög um háskóla nr. 136/1997. Í lögunum nr. 27/1981 er ákvæði um að hver sá sem notar starfsheiti án þess að hafa fengið slíkt leyfi skuli sæta sektum sem renna skulu í ríkissjóð.

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) er framsækið og virt fagfélag háskólamenntaðs fólks á sviði viðskiptafræða og hagfræða og má rekja sögu félagsins allt til ársins 1938. Hlutverk FVH er að stuðla að því að félagsmenn og aðrir áhugamenn um þessi fræði njóti fræðslu og endurmenntunar. FVH vill efla kynni og tengsl félagsmanna og hlúa að kjörum þeirra með ýmsum hætti s.s. með árlegri kjarakönnun.

Allir þeir sem útskrifast hafa sem viðskiptafræðingar eða hagfræðingar frá viðurkenndum íslenskum háskólum eru gjaldgengir í félagið. Sama á við um þá sem lokið hafa meistaraprófi úr viðskipta- eða hagfræðideild óháð grunngráðu. Þetta gildir einnig um þá sem lokið hafa MBA námi. Þeir sem fengið hafa leyfi til að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing hjá viðskiptaráðuneytinu eru einnig gjaldgengir í fagfélag stéttarinnar.

Þeir einstaklingar sem útskrifast úr viðskipta- eða hagfræðideildum erlendra háskóla og hafa ekki próf úr sömu deildum íslensks háskóla þurfa að sækja um leyfi til nefndar á vegum viðskipta­ráðuneytisins til að mega kalla sig viðskipta­fræðing eða hagfræðing. Nefndin metur síðan hvort erlendu háskólarnir og námið sé sambærilegt við nám í íslenskum háskólum.

Það er mikilvægt fyrir þennan hóp sem hefur fullgilt próf erlendis frá að hafa leyfi skv. íslenskum lögum til að nota starfsheitið viðskipta- eða hagfræðingur eftir því sem við á. FVH mælir eindregið með því að fólk með prófgráður erlendis frá sæki um slíkt leyfi og aðstoðar væntanlega félagsmenn sína við að ganga frá umsókn. Hægt er að senda póst á fvh@fvh.is.

Umsóknareyðublöðin má nálgast hér.

 

LAGASAFN.  ÍSLENSK LÖG 1. JANÚAR 2008.  ÚTGÁFA 135A.

Lög um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga 1981 nr. 27 25. maí

Ferill málsins á Alþingi.
Tóku gildi 9. júní 1981. Breytt með l. 41/2001 (tóku gildi 1. júní 2001).

 

1. gr. [Rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga, hagfræðinga eða nota heiti sem felur í sér orðin viðskiptafræðingur eða hagfræðingur hafa þeir menn hér á landi sem fengið hafa til þess leyfi viðskiptaráðherra. Þeir sem lokið hafa BS- eða cand. oecon.-prófi úr viðskiptadeild eða BS-prófi úr hagfræðideild viðurkennds íslensks háskóla eða meistaranámi úr framangreindum deildum, sbr. lög nr. 136/1997, um háskóla, þurfa ekki slíkt leyfi ráðherra.]1)
1)L. 41/2001, 1. gr.

2. gr. Engum má veita leyfi það, sem um ræðir í 1. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðskiptafræði eða hagfræði við háskóla eða annan æðri skóla.
Þó má veita mönnum, sem starfað hafa sem viðskiptafræðingar eða hagfræðingar eigi skemur en sex ár, leyfi til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga, enda þótt þeir fullnægi eigi prófskilyrðum þeim, sem um ræðir í 1. mgr. þessarar greinar.
[Áður en leyfi er veitt skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar skal leita álits þriggja manna nefndar sem ráðherra skipar á eftirfarandi hátt: Einn nefndarmaður samkvæmt tilnefningu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga og tveir samkvæmt tilnefningu ráðherra og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.]1)
1)L. 41/2001, 2. gr.

3. gr. Ráðherra sker úr ágreiningi, sem rísa kann um notkun starfsheita, sem fela í sér orðin viðskiptafræðingur eða hagfræðingur.

4. gr. Hver sem notar heiti, er leyfi þarf til samkvæmt lögum þessum, án þess að hafa fengið slíkt leyfi, skal sæta sektum. Sektirnar renna í ríkissjóð.

5. gr. Með mál út af brotum þessum skal fara að hætti opinberra mála.