Go to Top

Saga Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Félagssamtök hagfræðinga og viðskiptafræðinga á  Íslandi.
Almenna bókafélagið hf. gaf út viðskipta- og hagfræðingatal árið 1986. Þar birtist saga félagssamtaka viðskiptafræðinga og hagfræðinga skráð af Birni Matthíassyni. Þar var sagan  rakin nokkuð ítarlega frá árinu 1938 til lokaársins 1985. Í eftirfarandi  yfirliti verður stiklað á stóru, stuðst við grein Björns Matthíassonar og heimildir Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga fram til vors 1996. Þeim er  vildu kynna sér félagssöguna nánar er bent á fyrrnefnda grein Björns í talinu frá 1986 og Hag, fréttablað Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þar hefur verið birt yfirlit umstörf félagsins á hverju vori að aðalfundi loknum.

Hagfræðingafélag Íslands
Hagfræðingafélag Íslands var stofnað hinn 17. mars 1938. Tilgangur félagsins var að efla félagslyndi meðal hagfræðinga á Íslandi  og álit vísindalegrar hagfræðimenntunar og gæta hagsmuna stéttarinnar í  hvívetna. Tilgangi sínum skyldi félagið leitast við að ná með fundarhöldum og  auk þess á hvern þann hátt, sem heppilegur þætti á hverjum tíma.

Inntöku í félagið gat hver sá  fengið, er lokið hafði burtfararprófi við háskóla í hagfræði, tölfræði (statistikk) eða vátryggingafræði. Stjórnin veitti slíkum mönnum inngöngu, að fengnum fullnægjandi skilríkjum. Enn fremur mátti veita inntöku öðrum sem töldust til þess fallnir, en tillöguna um inntöku þeirra varð að samþykkja með 2/3 hluta greiddra atkvæða á félagsfundi.

Félagið hélt fundi um efnahags- og atvinnumál samkvæmt samþykktum sínum, þótt starfsemin væri misjafnlega lífleg. Samþykkt var að  taka upp samstarf við yngri hagfræðinga á Norðurlöndunum árið 1947. Á félagsfundi árið 1948 var samþykkt að veita viðskiptafræðingum aðgang að fundum félagsins og síðar meir viðskiptafræðistúdentum einnig. Árið 1949 eru 32 sagðir vera í félaginu, en 30 í Félagi viðskiptafræðinga.

Hinn 26. maí 1959  var samþykkt tillaga á fundi Hagfræðingafélagsins um að gerast aðili að stofnun Hagfræðafélags Íslands ásamt félögum úr Félagi viðskiptafræðinga.

Formenn Hagfræðingafélags Íslands:
1938-1941  Þorsteinn Þorsteinsson
1941-1947 Oddur Guðjónsson
1947-1949 Klemens  Tryggvason
1949-1951 Björn Björnsson
1951-1959 Gylfi Þ. Gíslason
Félag viðskiptafræðinga
Félag viðskiptafræðinga var stofnað 23. mars árið  1946. Tilgangur félagsins var: a) að afla félagsmönnum lögverndaðra réttinda,  b) að stuðla eftir megni að bættum launakjörum félagsmanna, c) að vera  félagsmönnum til aðstoðar um útvegun atvinnu og veita atvinnurekendum almennar upplýsingar um félagsmenn, d) að vinna að öðru leyti að framgangi  sameiginlegra hagsmuna og áhugamála félagsmanna og auka kynningu þeirra.

Félagsmenn gátu þeir einir orðið sem lokið höfðu prófi í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands eða höfðu  hliðstætt próf erlendis frá og voru íslenskir ríkisborgarar. Inntökubeiðnir  og úrsagnir skyldu vera skriflegar og sendast félagsstjórn. Stjórn skyldi  athuga nákvæmlega inntökubeiðnir þeirra sem ekki höfðu útskrifast í  viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands. Teldi stjórn skilyrðum fullnægt og 2/3  fundarmanna á félagsfundi greiddu inntökubeiðninni atkvæði, skoðaðist hún  löglega samþykkt.

Eins og sjá má voru atvinnu- og kjaramál í forgangsröð. Starfsemi félagsins fór aðallega fram á aðalfundum á tilverutímabili félagsins, 1946-1958.

Á aðalfundi félagsins 1957 fóru fram umræður um hvort  félagið ætti að sameinast Hagfræðingafélagi Íslands og hvort það ætti að gerast stéttarfélag.

Árið 1958 var  samþykkt tillaga á aðalfundi félagsins þess efnis að félagið skuli gerast aðili að fyrirhuguðu bandalagi háskólamanna og varð félagið einn stofnaðila  Bandalags háskólamanna það ár.

Félag  viðskiptafræðinga sameinaðist svo Hagfræðingafélagi Íslands vorið 1959.

Formenn Félags viðskiptafræðinga:

1946-1948 Sveinn Þórðarson
1948-1950 Hjörtur Pjetursson
1950-1956 Guðlaugur  Þorvaldsson
1956-1957 Ragnar Borg
1957-1958 Hjálmar Finnsson
1958-1959 Valdimar Kristinsson
Hagfræðafélag Íslands
Hagfræðafélag Íslands var stofnað 26.maí 1959.  Tilgangur þess var að efla hagfræði og skyldar fræðigreinar á Íslandi, vinna að sameiginlegum hagsmunum hagfræðimenntaðra manna og auka kynni þeirra.  Tilgangi sínum hugðist félagið ná með því að efna til umræðufunda og auk þess á hvern þann hátt annan, er heppilegur þætti.

Inntöku í félagið gat hver sá fengið er lokið hafði  burtfararprófi frá háskóla í hagfræði, viðskiptafræði, tölfræði eða tryggingafræði. Veitti stjórnin slíkum mönnum inngöngu að framlögðum fullnægjandi skilríkjum.  Aðrir er unnu að hagfræðilegum störfum eða hefðu  sýnt sérstakan áhuga á hagvísindum gátu fengið inngöngu í félagið fengi umsóknaraðili 2/3 greiddra atkvæða á félagsfundi.

Á næstu árum hélt félagið fundi þar sem aðallega var fjallað um efnahags- og atvinnumál. Kjaramál urðu ofarlega á baugi og á aðalfundi árið 1962 var kosin launanefnd (síðar kjaramálanefnd) á vegum  félagsins. Fundir voru haldnir þar sem eingöngu var fjallað um kjaramál og aðild að ráði BHM.

Árið 1964 lýsti  fundur í Hagfræðafélagi Íslands stuðningi við áform Bandalags háskólamanna um að verða almenn hagsmunasamtök háskólamenntaðra manna í landinu og afla samningsréttar við ríki og sveitarfélög fyrir hönd þeirra starfsgreina, er að bandalaginu standa.

Árið 1967 gerði  kjaramálanefnd félagsins umfangsmikla könnun á kjaramálum félagsmanna. Á  aðalfundi sama ár voru þrjár nýjar nefndir skipaðar með kosningu: Ráðstefnunefnd, fræðslunefnd og hátíðarnefnd.

Á aðalfundi árið 1968 var meðal annars rætt um framhaldsmenntun og endurmenntun.

Vorið 1972 var haldinn aðalfundur, þar sem samþykkt voru ný lög fyrir félagið. Í lögum þeim sem samþykkt voru, voru nýmæli þau helst að nafni félagsins var breytt í Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga  og Hagfræðafélagið þar með lagt niður.

Formenn Hagfræðafélags Íslands:
1959-1961 Jónas H. Haralz
1961-1962 Jóhannes Nordal
1962-1965 Benjamín Eiríksson
1965-1968 Bjarni Bragi Jónsson
1968-1971 Ragnar Borg
1971-1972 Þórir Einarsson
Félag  viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Í  hinum nýju lögum sem samþykkt voru fyrir félagið 30. maí 1972 er  skráður tilgangur félagsins í 2. gr.:

1) Að gæta hagsmuna  íslenskra viðskiptafræðinga og hagfræðinga og vinna að bættum kjörum þeirra.

2) Að vera í fyrirsvari fyrir félagsmenn gagnvart innlendum og erlendum  aðilum.

3) Að efla viðskiptafræði, hagfræði og skyldar fræðigreinar á  Íslandi, auka þekkingu félagsmanna á þessum sviðum og efla Viðskiptadeild Háskólans.

4)  Að auka álit landsmanna á hagvísindum.

5)   Að efla tengsl og kynni félagsmanna.

Félagsmaður gat  hver sá orðið sem lokið hafði burtfararprófi frá viðurkenndum háskóla í hagfræði eða viðskiptafræði, en auk þess var heimilt að veita inntöku aukafélögum, öðrum en þeim sem að ofan greinir. Stjórn félagsins skyldi taka ákvörðun um inntöku nýrra félagsmanna.

Tvær fastanefndir voru settar á stofn með lögum félagsins, kjaranefnd og fræðslunefnd.

Á aðalfundi félagsins 1973 var skýrt frá starfi fræðslunefndar, sem haldið hafði þrjú endurmenntunarnámskeið. Á fundinum var samþykkt að félagið gerðist fullgildur aðili að norrænum samtökum viðskiptafræðinga (Nordisk civilökonom Forbund, NCF). Rædd voru breytt viðhorf til samningamála sem skapast höfðu við ný lög um samningsrétt Bandalags háskólamanna, BHM, gagnvart ríkinu. Um sextíu félagsmenn féllu innan ramma þessara laga og yrðu þeir því að gera upp við sig hvort þeir létu BHM eða BSRB fara með samningamál sín. Borin var upp tillaga og samþykkt þess efnis að stofnuð yrði sérstök kjaradeild ríkisstarfsmanna innan félagsins, sem hafi með höndum samningamál skv. nýjum lögum um kjarasamninga  opinberra starfsmanna. Þann 25. júní 1973 var haldinn stofnfundur í deild ríkisstarfsmanna innan félagsins.

Á þessum árum og æ síðan voru haldnir hinir sígildu  fundir um efnahags- og atvinnumál, sem og hin fyrri félög höfðu gert, þótt aðrir málaflokkar hlytu umfjöllun.

Á aðalfundi árið 1974 var  samþykkt ályktun þess efnis að taka bæri upp lærdómsheitið  rekstrarhagfræðingur í stað heitisins viðskiptafræðingur, enda væri það  samsvarandi við slík heiti á Norðurlöndunum og betri lýsing á eðli menntunarinnar. Beindi fundurinn þeim tilmælum til Háskóla Íslands að slík  breyting yrði gerð og nafni deildarinnar jafnframt breytt hagfræðideild.

Félagið  skipulagði norrænt hagfræðimót í Reykjavík árið 1975 og var stofnuð sérstök undirbúningsnefnd til þess verkefnis. Formaður hennar var Jónas H. Haralz.

Á aðalfundi árið 1979 var  samþykkt að félagið keypti 2% í eign að Lágmúla 7 með BHM.

Veturinn 1979-80 var lagt fram fumvarp á alþingi um rétt manna til þess að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing. Stjórnir félagsins höfðu um nokkurt skeið unnið að því að fá starfsheitin hagfræðingur og viðskiptafræðingur löggilt. Rætt hafði verið við viðskiptaráðherra, menntamálaráðherra, forseta viðskiptadeildar og þingmenn.  Varð frumvarpið að lögum nr. 27, 25. maí 1981. Skipuð var þriggja manna matsnefnd skv. 2. gr. laga nr. 27/1981 um heimild manna til þess að kalla  sig viðskiptafræðing eða hagfræðing. Menntamálaráðherra skipar nefndina, einn samkvæmt tilnefningu félagsins, annan samkvæmt tilnefningu  viðskiptadeildar Háskóla Íslands og hinn þriðja án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Árið 1980 var ákveðið að ráðast í útgáfu viðskipta- og hagfræðingatals ef um semdist við útgáfufyrirtæki og skipuð ritnefnd á vegum félagsins.  Félagið hóf undirbúning hópumsóknar til matsnefndar fyrir þá félagsmenn er stundað höfðu nám í hagfræði eða viðskiptafræði við erlenda háskóla í þrjú ár eða lengur og  lokið höfðu prófi að því loknu. Í febrúar 1982 var ákveðið að gefa út viðskipta- og hagfræðingatal í samvinnu við Almenna bókafélagið. Á árinu 1983 skilaði kjaranefnd félagsins hópumsókn til matsnefndar starfsheita og tók hún hana til afgreiðslu.

Útgáfa fréttabréfs hófst í janúar 1979. Hefur það komið út síðan en breytt um útlit frá því er var í upphafi. Í desember 1985 var því gefið nafnið Hagur og nýtt útlit, var það 12 síður í A4 broti, með bláan lit í haus. Vorið 1986 var samþykkt lagabreyting þess efnis að fastanefndir félagsins skyldu vera þrjár.  Þá var skipuð ritnefnd og skyldi hún hafa umsjón með útgáfu fréttabréfs félagsins. Hagur var þá ýmist 4 eða átta síður. Uppsetningu efnis og útliti var einnig verið breytt. Frá árinu 1998 hafa verið gerðar þó nokkrar breytingar á Hag því nú er blaðið prentað í lit og er ýmist 12 eða 16 síður.

Kjaranefnd framkvæmdi kjarakönnun meðal félagsmann í apríl 1979 og voru kjarakannanir framkvæmdar árlega fram til 1982. Þá var ákveðið að kjarakannanir skyldu gerðar annað hvert ár og sá háttur verið hafður á síðan.

Stjórn FVH 1983 hóf undirbúning að gerð merkis fyrir félagið. Tillaga um merkið birtist í fréttabréfi félagsins í maí 1984 og var óskað eftir athugasemdum. Aðalfundur, sem haldinn var í nóvember árið 1984 samþykkti tillögu um að þetta merki yrði merki félagsins. Hönnuður merkisins var Ástmar Ólafsson, auglýsingateiknari. Árið 1999 var nýtt merki kynnt fyrir félagsmönnum sem nú er notast við. Það var hannað af auglýsingastofunni Yddu.

Aðalfundur árið 1984 samþykkti einnig lagabreytingu þess efnis að aðalfundir félagsins skyldu haldnir eigi síðar en í maí ár hvert. Á  sama aðalfundi var þess getið að fjöldi félaga nálgist eitt þúsund og rætt  um hvaða þjónustu félagið eigi að veita vaxandi fjölda félagsmanna. Til þess að mæta auknum umsvifum þyrfti að huga að opnun skrifstofu og ráðningu starfsmanns. Þess var getið að aðild félagsins að BHM gæti komið til endurskoðunar ef ákveðið yrði að færa út kvíarnar, einkum með hliðsjón af því að umtalsverður hluti af félagsgjöldum rynni beint til BHM.

Sumarið 1985 var kosin nefnd til þess að semja álitsgerð um aðild félagsins að Bandalagi háskólamanna. Skilaði nefndin áliti á haustmánuðum þar sem reifaðir voru þrír möguleikar:

1) að  vera áfram í BHM,

2) að ganga úr því,

3) úrsögn úr BHM en leita jafnframt eftir áfram-haldandi aðild kjaradeildar félagsins að BHM.

Á aðalfundi vorið 1985 var skýrt frá kosningu  heiðursfélaga FVH, Klemensar Tryggvasonar og Ólafs Björnssonar. Ólafur  Björnsson tók við heiðursskjölunum fyrir þeirra hönd. Árið 1987 var Gylfi Þ. Gíslason kosinn heiðursfélagi FVH og á fimmtíu ára afmælisári félagins árið  1988 var Oddur Guðjónsson kosinn heiðursfélagi.

Þann 1. október 1985 var Elín G. Óskarsdóttir ráðinn framkvæmdastjóri FVH í hlutastarfi og opnuð skrifstofa félagsins í nóvember á Hallveigarstíg 1. Fyrsti fundur stjórnar í hinu nýja aðsetri félagsins var 20. janúar 1986. Skrifstofa félagsins fluttist síðar á Flókagötu 65. Þaðan var flutt árið 1997 í Hús verslunarinnar að Kringlunni 7.  Árið 1998 var Margrét Þorsteinsdóttir, viðskiptafræðingur ráðin framkvæmdastjóri FVH. Árið 2001 tók Unnur Arna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur við því starfi.

Á árunum 1985-1987 lögðu stjórnarmenn félagsins mikla vinnu í endurskoðun aðildar FVH að Bandalagi háskólamanna. Á aðalfundi árið 1985 var ákveðið að fresta aðgerðum, umræðu og kynningu meðal félagsmanna þar til þing BHM hefði verið haldið í nóvember það ár. Á því þingi voru gerðar tillögur um breytingar á starfsáætlun og fjárhagsáætlun BHM, en þær fengust ekki samþykktar óbreyttar og greiddu fulltrúar FVH því atkvæði gegn fjárhagsáætluninni í heild sinni. Þessi málarekstur varð þó til þess að BHM skipaði þriggja manna nefnd  til endurskoðunar á rekstri bandalagsins og óskaði eftir tilnefningu fulltrúa FVH í nefndina. Samstaða var alla tíð í stjórn FVH um að félagið styddi þá hugmynd að háskólamenn störfuðu saman í einhvers konar félagssamtökum og ynnu að málum þar sem áhugamál og hagsmunir þeirra færu  saman. Þótti stjórnarmönnum að starfsemi BHM einkenndist um of af starfi  stéttarfélags og þá einkum hagsmunabaráttu opinberra starfsmanna. Þó  umfjöllun um kjaramál opinberra starfsmanna væri komin í sérstök félagasamtök, BHMR hefði lítil breyting orðið á starfsemi BHM.

Á aðalfundi  árið 1987 var samþykkt heimild til stjórnar um áframhaldandi athugun á aðild  að BHM og ef stjórn þyki svo að ákveða allsherjar atkvæðagreiðslu um úrsögn  félagsins úr BHM. Árið 1988 fór nefnd á vegum félagsins enn einu sinni yfir  aðildarmálin og í framhaldi af því var viðhorf félagsmanna til BHM kannað.  Gögn voru send út með kjarakönnun 1989. Spurt var um ánægju/óánægju félaga með störf BHM og hvort FVH ætti að segja sig úr BHM. Stór hluti svarenda hafði enga skoðun á ágæti BHM og tók ekki afstöðu til úrsagnar. Meiri hluti þeirra sem tóku afstöðu til úrsagnar vildi breyta BHM með virkari þátttöku FVH. Í samræmi við þetta tilnefndi FVH fulltrúa í ýmsar nefndir og átti auk þess fulltrúa í aðalstjórn BHM. Aðalfundur félagsins árið 1992 veitti stjórn FVH heimild til þess að meta árangur tveggja ára virkrar þátttöku í Bandalagi háskólamanna og taka ákvörðun um áframhaldandi aðild félagsins að bandalaginu. Mat stjórnar FVH var að félagið gæti betur nýtt þá fjármuni, sem greiddir hefðu verið til Bandalags háskólamanna innan síns eigin félags til eflingar félagsstarfsins. Sagði  félagið sig því úr Bandalagi háskólamanna með bréfi dagsettu 14. september 1992. Lagabreyting sem laut að því að fella niður þá lagagrein í lögum  félagsins sem fjallaði um aðild þess að BHM var samþykkt á aðalfundi 1993. Árið 1993 var eignarhluti FVH (1.81%) í Ásbrú sf., Lágmúla 7, aðsetri BHM og BHMR, seldur. Lauk þar með umfjöllun og afskiptum stjórnar FVH af þessum  viðamikla málaflokki.

Árið 1986 var  skipuð Orðanefnd FVH. Formaður hennar var Árni Vilhjálmsson. Orðanefndin  skyldi samhæfa og skýra notkun hagfræðihugtaka og þýða erlend hugtök á  íslenska tungu. Árið 1989 var Kirstín Flygenring ráðinn ritstjóri í  hlutastarfi og síðar kom Brynhildur Benediktsdóttir einnig til starfa. Orðanefnd var endurskipuð og gerð drög að verkefnaáætlun fyrir viðskipta- og hagfræðiorðalista. Formaður varð Hallgrímur Snorrason og hefur hann stýrt verkefninu síðan. Mikið starf hefur verið innt af hendi og miklu meira en nokkurn óraði fyrir í upphafi. Margir hafa starfað í sjálfboðavinnu og margir aðilar styrkt starfsemina með fjárframlögum. Árið 2000 kom hagfræðiorðasafnið út.

Þann 17. mars 1988 voru fimmtíu ár frá stofnun Hagfræðingafélags Íslands, fyrsta fyrirrennara FVH. Í mars það ár var því haldinn vegleg afmælishátíð, ráðstefna og afmælishóf. Fengir voru virtir fyrirlesarar bæði innlendir og erlendir. Meðal þeirra var dr. Charles P. Kindleberger. Sérstök afmælisnefnd var skipuð til  þess að annast skipulag afmælishátíðarinnar og var Jónas H. Haralz formaður  hennar.

Fyrsta golfmót félagsins var haldið 24. júní 1988. Golfmót hafa síðan verið haldin undir merkjum félagsins í lok ágúst á hverju ári.

Fundahöld og ráðstefnur hafa ætíð skipað veglegan sess í starfi félagssamtaka viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Margar athyglisverðar ráðstefnur og fundir hafa verið haldnir á vegum félagsins, sem ástæða hefði verið til að geta hér. Verður þó að láta nægja að flokka þá eins og áður í þessum texta undir fjölda funda og ráðstefna um efnahags- og atvinnumál. Fræðslunefnd félagsins hefur verið mjög öflug. Hin síðari ár hefur það verið venja að halda eina stærri ráðstefnu á útmánuðum og  morgunverðarfundi á tímabilinu september til maí. Einnig hefur félagsmönnum  boðist að fara í fyrirtækjaheimsóknir þar sem fyrirtækin hafa kynnt starfsemi sína. Fræðslunefnd hefur einnig átt gott samstarf við  Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og lagt á ráðin um námskeið og fyrirlesara fyrir félagsmenn FVH.

Í nóvember 1988 var ákveðið að stofna Norðurlandsdeild FVH. Það voru viðskiptafræðingar og hagfræðingar sem búa á Norðurlandi, sem  vildu styrkja starf FVH heima í sínu héraði. Lagabreytingar voru samþykktar á  aðalfundi árið 1989 sem heimiluðu að stofna megi landsbyggðadeildir og að fulltrúi þeirra skuli sitja í stjórn félagsins. Urðu stjórnarmenn því átta í stað sjö með þessari lagabreytingu.

Í júní árið 1989 skipulagði FVH þing norrænna  viðskiptafræðinga (NCF) í Reykjavík, og einnig vorið 1994. Fundir NCF eru haldnir tvisvar á ári. Félagið hefur oftast sent fulltrúa sinn á vorþing  samtakanna.

Kjaranefnd lét kanna hvort FVH ætti að stofna sérstakan lífeyrissjóð. Samin var greinargerð um lífeyrismál, einkenni helstu lífeyrissjóða, sem félagsmenn FVH voru í og kosti þess og galla að stofna sérstakan lífeyrissjóð FVH. Gallarnir reyndust vega þyngra en kostirnir, en greinargerðin birtist í Hag í mars 1989.

Árið 1989 var ákveðið að kynna nýútskrifuðum kandidötum úr viðskipta- og hagfræðideild starfsemi FVH og framhaldsnámsmöguleika. Kynning sem þessi hefur síðan orðið að föstum lið í  starfsemi félagsins á hverjum vetri.

Norræn hagfræðingaþing voru um langt árabil haldin á tveggja til þriggja ára fresti til skiptis á Norðurlöndunum. Félagið tók þátt í þingunum og fluttu fulltrúar þess þar erindi við góðan orðstír. Árið 1991 var fyrirhugað að FVH sæi um framkvæmd slíks þings í  Reykjavík. Þátttökuskráning var svo lítil að afráðið var í samráði við samnorræna  skipulagsnefnd að aflýsa þinginu.

Árin 1989 og 1990 var atvinnuleysistryggingalöggjöf í  endurskoðun hjá hinu opinbera og sérstök nefnd að störfum í þeim málum. Samkvæmt þáverandi löggjöf voru háskólamenntaðir menn útilokaðir frá bótum og ákvæði um að einungis félagar í stéttarfélögum ættu rétt á bótum. Kjaranefnd lagði þá mikla vinnu í að stuðla að því að þessi ákvæði yrðu felld niður og hafði samflot með öðrum félögum háskólamanna. Gengið var á fund ráðamanna, rituð bréf til þingmanna og ráðherra og ritað um málið í félagsblöð.  Endurskoðunarnefnd varð sammála um að fella ákvæðið um háskólamenntun niður en samstaða náðist ekki um stéttarfélagsaðild. Kjaranefnd tók aftur upp baráttu við síðari umfjöllum um atvinnuleysistryggingar árið 1993.

Árið 1989 hófust viðræður fulltrúa Kjaradeildar FVH og stjórnar félagsins um stöðu kjaradeildarinnar innan félagsins. Töldu kjaradeildarmenn að stefna bæri að sérstöku stéttarfélagi a.m.k. þeirra viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem störfuðu hjá ríkinu. Samningsstaða Kjaradeildar FVH kynni að vera dregin í efa í hörðum  kjaradeilum og  möguleiki væri á að stefna FVH vegna skaðabótagreiðslna vegna  samningsrofa sem kjaradeildin bæri í raun ábyrgð á. Á aðalfundi 1990 var  samþykkt heimild til stjórnar félagsins að taka upp viðræður við stjórn Kjaradeildar FVH um stofnun sjálfstæðs stéttarfélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, sem hefði innan sinna vébanda starfsmenn hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði. Stjórn og Kjaranefnd FVH ákváðu að kynna félagsmönnum  málið og kanna eftir það vilja þeirra til aðildar að stéttarfélagi. Sú könnun var unnin jafnhliða kjarakönnun 1991. Í ljós kom að þeir sem þegar voru  í stéttarfélagi voru hlynntari stéttarfélagshugmyndinni en þeir sem stóðu utan þeirra. Kjaradeildarmenn  töldu að nægilegt verkefni í fyrstu væri að stofna stéttarfélag meðal félaga í opinberri þjónustu. Því varð niðurstaðan sú að Kjaradeild FVH var lögð niður og Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, KVH, stofnað fyrir viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem starfa í opinberri þjónustu. Lagabreytingar varðandi niðurfellingu kjaradeildarinnar voru samþykktar á aðalfundi 1991.

Tekin var upp sú nýbreytni í fræðslustarfi FVH árið 1992 að stofna umræðuhóp um fjármál.  Hópurinn er opinn öllum félagsmönnum FVH en fyrst og fremst ætlaður þeim sem starfa á fjármálasviði. Með þessu var gerð tilraun til að fara meira inn á sérsvið félagsmanna en unnt er að gera á almennum fundum.

Haustið 1992 vann kjaranefnd atvinnukönnun meðal viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem útskrifuðust úr viðskipta- og  hagfræðideild Háskólans 1991 og 1992.

Niðurstöður könnunarinnar bentu til þess að sögusagnir um  erfiðleika þessa hóps á því að fá vinnu að námi loknu væru stórlega ýktar. Af því sem fram kom mátti þó ráða að heldur hefði þrengst um störf og laun staðið í stað eða lækkað lítillega. Framhald varð á gerð atvinnukannana  meðal nýútskrifaðra viðskiptafræðinga og hagfræðinga og hafa útskriftarárgangar frá 1991 til 1995 verið spurðir. Vísbendingar eru um að atvinnuástand hafi batnað og laun hækkað.

Árið 1992 hófust umræður í stjórn FVH um það hvort viðskiptafræðingar og hagfræðingar ættu að hafa skráðar siðareglur og stofna siðanefnd. Samþykkt var að stofna undirbúningsnefnd til þess að yfirvega þetta mál og koma með tillögur. Formaður nefndarinnar var í upphafi  Guðlaugur Þorvaldsson, en Kristján Jóhannsson tók síðar við formennskunni. Stjórn og undirbúningsnefnd töldu nauðsynlegt að koma á stað umræðum innan félagsins um siðareglur, markmið þeirra og eðli áður en fyrstu tillögurnar yrðu kynntar. Erindi voru flutt á fundum og greinar skrifaðar í Hag í þessum tilgangi. Nefndin skilaði stjórn FVH yfirliti um störf sín og hugmyndir í mars 1994. Taldi hún félagsmenn FVH of ósamkynja hóp til að unnt væri að setja fram nákvæmar siðareglur sem tækju mið af aðstæðum í starfi  hvers og eins. Hins vegar taldi nefndin að rétt væri að setja fram almennar leiðbeiningar um siðferði í viðskiptum. Nefndin sendi svo stjórn tillögur  sínar um siðareglur FVH. Stjórnin fjallaði um tillögurnar og gerði á þeim smávægilegar breytingar. Haft var samráð við siðanefnd um endanlega uppsetningu reglnanna og þær  lagðar fyrir aðalfund FVH í maí 1996, þar sem þær hlutu samþykki félagsmanna.

Haustið 1993 var ákveðið að koma á fót nýjum umræðuhópi, umræðuhópi um hagfræði. Skyldi hann opinn öllum félagsmönnum en þó sérstaklega ætlaður þeim sem útskrifast hefðu á hagfræðisviði eða störfuðu á því sviði. Stofnfundur hópsins var haldinn 2. mars 1994.

Í maí 1993 gekk stjórn félagsins frá samningi við Almenna  bókafélagið um að gefa út nýtt viðskipta- og hagfræðingatal.  Viðskiptafræðingum og hagfræðingum hafði þá fjölgað nær um helming frá því sem var í talinu frá 1986. Hófst þá undirbúningsvinna.

Árið 1995 varð samkomulag milli FVH, Almenna bókafélagsins og Þjóðsögu hf., um að Þjóðsaga tæki að sér útgáfuna og þá hafist handa að setja kraft í alla undirbúningsvinnu.

Veturinn 1994 gerði kjaranefnd úttekt á nokkrum  lífeyrissjóðum, hvað þeir hefðu að bjóða og tók saman greinargerð sem birt var í Hag. Vorið 1995 safnaði kjaranefnd upplýsingum um framhaldsnám erlendis og birti grein um þau mál í Hag.

Undanfarin tvö ár hafa töluverðar umræður farið fram í stjórn og kjaranefnd FVH um það hvernig megi hvetja félagsmenn til þess að greiða félagsgjaldið skilvíslega. Samdráttar fór að gæta í greiðslu félagsgjalda jafnhliða samdrætti almennt í þjóðfélaginu. Störf viðskiptafræðinga og hagfræðinga eru margvísleg og þess vegna er félagsvitund þeirra sem samstæðs hóps minni en margra annarra háskólamenntaðra manna.  Stjórn hefur því velt fyrir sér hvernig eigi að markaðssetja FVH. Hvert er  hlutverk félagsins? hverjir eiga að vera áhersluþættir þess? og síðast en  ekki síst fyrir hverja? Þegar lög FVH voru samin var Háskóli Íslands eini  skólinn hér á landi sem bauð framhaldsmenntun í viðskipta- og hagfræðum á  háskólastigi. Það á einnig við um lögin nr. 27/1981 um rétt manna til þess að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing.

Hér á landi er nú í boði fjölbreyttara háskólanám í rekstrar-, viðskipta- og hagfræðum og fleiri en ein menntastofnun sem það bjóða. Stjórn FVH hefur í samræmi við 3. gr. laga  sinna um félagsaðild og lög nr. 27/1981 tekið alla útskrifaða kandidata úr viðskipta- og hagfræðideild á félagaskrá sína og boðið öllum aðild sem fengið hafa leyfi ráðherra til að
kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing.

Stjórn FVH áleit því tíma  til kominn að endurskoða lög FVH og vinna að stefnumótun. Ef starf FVH á að þjóna tilgangi sínum og verða sem áhugaverðast fyrir þá sem félagsaðild eiga, verður hlutverk þess að vera ljóst og hnitmiðað. Þessi endurskoðun og stefnumótun hefur verið meðal aðalverkefna stjórna árin 1995 og 1996.

Á aðalfundi vorið 1997 voru kynnt drög að stefnumörkun stjórnar FVH og tillögur um breytingar á 2. grein laga félagsins. Í júní-blaði Hags sama ár var skýrsla stjórnar frá þessum aðalfundi birt og tillögurnar þar með kynntar þeim félagsmönnum sem ekki höfðu komið á fyrrnefndan aðalfund.

Í ársbyrjun 1997 var var haft samband við deildarforseta viðskipta- og hagfræðideildar, Ragnar Árnason, og óskað eftir fundi um starfs- og námstitlana viðskiptafræðingur hagfræðingur. Fundurinn var haldinn í janúarmánuði. Í  framhaldi þessa fundar lagði  stjórn FVH til að komið yrði á laggirnar nefnd sem gerði drög að tillögum um breytingar á lögunum nr. 27/1981 um heimild manna til þess að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing. Viðskipta- og hagfræðideild tilnefndi tvo fulltrúa , FVH tvo og einnig voru þáverandi fulltrúar  svokallaðrar matsnefndar í vinnuhópnum. FVH skrifaði menntamálaráðuneytinu bréf og bauð þeim  að tilnefna fulltrúa í nefndina, en því var hafnað. Vinnuhópurinn var að störfum með sumarhléi til vors 1998 en þá skilaði hann tillögum til stjórnar FVH um breytingar á lögunum nr. 27/1981. Stjórnin samþykkti tillögurnar og voru þær sendar með greinargerð til menntamálaráðherra í maí 1998. Árið 2001 var lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögunum  og var það samþykkt. Með þessum breytingum var opnað fyrir aðra háskóla á Íslandi að útskrifa viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

Kjaranefnd gerði kjarakönnun meðal félagsmanna og var miðað við febrúarmánuð 1997. Jafnhliða kjarakönnun var gerð viðhorfskönnun, þar sem m.a. átti að forgangsraða nokkrum atriðum sem félagsmenn kysu helst að FVH beitti sér  fyrir. Niðurstaðan úr viðhorfskönnun var  sú að röðun félagsmanna var í nokkuð góðu samræmi við áhersluatriði í starfi FVH. Kjaranefnd birti einnig grein í  febrúarblaði Hags þetta ár um ýmis hagnýt atriði sem mikilvægt er að hafa í huga við gerð  ráðningarsamninga.

Bókaútgáfan  Þjóðsaga gaf út nýtt viðskipta- og hagfræðingatal í febrúar 1997 í samvinnu við FVH. Í stéttartalinu eru 2.612 æviskrár viðskiptafræðinga og hagfræðinga og hefur fjöldinn rúmlega tvöfaldast frá því að ritið kom fyrst út fyrir um áratug.

Í byrjun starfsárs 1997/1998 ákvað stjórn FVH að gera  átak í tölvu- og upplýsingamálum félagsins og kaupa búnað sem gerði FVH kleift að koma sér upp heimasíðu. Á heimasíðunni skyldu vera lágmarksupplýsingar í fyrstu, en hana skyldi þróa áfram  og setja þar inn ýmsar gagnlegar upplýsingar um FVH og starfsemi þess. Þessi hluti yrði öllum opinn en  einnig yrðu undirkaflar sem einungis yrðu opnir þeim sem greiða félagsgjaldið og fengju þá sérstakt  aðgangsorð.

Stjórn FVH lauk við endurskoðun á hlutverki og framtíðarsýn félagsins og lagði fram lagabreytingar á 2. gr. laga FVH á aðalfundi félagsins vorið 1998 . Lögum félagsins hafði ekki í öllum megin atriðum verið breytt frá árinu 1972. Tillögurnar voru samþykktar með lítils háttar málfarsbreytingum.
Er nú 2. gr. laga FVH um hlutverk félagsins svo hljóðandi: Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga,  FVH, er fagfélag háskólamanntaðs fólks á sviði viðskiptafræði og hagfræði á Íslandi.

Hlutverk félagsins er:

1. Að efla hagnýta menntun og rannsóknir í viðskiptafræði, hagfræði og skyldum fræðigreinum á Íslandi.
2. Að stuðla að því að félagsmenn og aðrir áhugamenn um  þessi fræði njóti fræðslu og endurmenntunar.
3. Að kynna menntun félagsmanna og efla ímynd  þeirra.
4. Að veita félagsmönnum hagnýtar  upplýsingar og ráðgjöf um málefni sem snerta kjör þeirra og starfsframa.
5. Að efla kynni og tengsl félagsmanna.
6. Að stuðla að því að félagsmenn virði siðareglur FVH.

Stjórnin setti fram framtíðarsýn FVH og er hún svohljóðandi: FVH er framsækið og virt fagfélag sem veitir félagsmönnum öflugan stuðning og vettvang til samstarfs.  FVH stuðlar að og tryggir eftir mætti að menntun og endurmenntun félagsmanna standist strangar gæðakröfur og sé í samræmi við áhuga þeirra og þarfir atvinnulífsins.

Þegar litið er yfir farinn veg félaga viðskiptafræðinga  og hagfræðinga hljóta flestir að vera sammála um að þau hafi verið sinni stétt til framdráttar. Þeirri sem þetta ritar verður efst í huga aðdáun og þakklæti til þeirra mörgu sem lagt hafa hönd á plóginn með elju sinni og áhuga. Endurgjaldið hefur í flestum tilfellum verið ánægja sú sem felst í  samvinnu  góðs fólks. Fullt tilefni hefði verið til að geta allra þeirra í þessu ágripi en rými hér á síðum er takmarkað. Vonandi ber Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga gæfu til að njóta krafta margra góðra kvenna og karla úr stéttinni í framtíðinni sem hingað til, en ekki má gleyma því að félagið verður því aðeins öflugt að sem  flestir viðskiptafræðingar og hagfræðingar verði þátttakendur og styðji við bakið á sínu félagi.

Formenn Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga:
1972-1974 Þórir Einarsson
1974-1975 Valur Valsson
1975-1978 Ólafur Davíðsson
1978-1980 Brynjólfur Bjarnason
1980-1982 Tryggvi Pálsson
1982-1985 Þórður Friðjónsson
1985-1987 Eggert Ág. Sverrisson
1987-1990 Kristján Jóhannsson
1990-1995 Sigurjón Pétursson
1995-1997 Friðrik Jóhannsson
1997-2001 Kristján Jóhannsson
2001-2003 Margrét Kr. Sigurðardóttir
2003-2005 Ragnar Þórir Guðgeirsson
2005-2006 Elín Þórunn Eiríksdóttir
2006-2008 Þröstur Olaf Sigurjónsson
2008-2010 Auður Björk Guðmundsdóttir
2010-2014 Örn Valdimarsson
2014- Dögg Hjaltalín