top of page
Writer's pictureFVH

Starfsárið byrjar með Liv

,,Fyrirtækjarekstur er bara úthald og keyrsla" sagði hin reynslumikla athafnakona Liv Bergþórsdóttir í einlægu Viðskiptaspjalli þann 21. september.

Starfsárið byrjaði með Liv Bergþórsdóttur á fallegum síðsumarsdegi á Vinnustofu Kjarvals. Liv er einn reynslumesti stjórnandi landsins en hún hefur ýmist stýrt eða setið í stjórnum fyrirtækjanna Nova, WOW, 66norður, CCP, AUR, ORF Líftækni, Bláa Lóninu, Iceland Seafood og er nú forstjóri BIOEFFECT. Liv sagði á skemmtilegan og einlægan hátt frá hápunktum og lágpunktum ferlis síns en reynsla hennar er bæði fjölbreytt og drífandi og einkennist af staðfestu hennar við að láta hugmyndir sem hún hefur trú á rætast.

Mörg þau fyrirtækja sem Liv hefur komið að, eins og t.d. Nova og WOW, hafa einkennst af frumkvöðlamenningu þar sem hún hefur fengið frjálsar hendur þegar kemur að því að móta dna fyrirtækjanna og menningu. Þar hefur Liv lagt áherslu á að mikilvægt sé að hafa gaman í vinnunni um leið og agi og hlutverk hvers og eins séu vel skilgreind.

“Þarf alltaf að vera gaman? Já, það þarf bara alltaf að vera gaman… þú ert að byggja upp lið”.

Einlægur áhugi og ástríða fyrir því verkefni sem hún tæki að sér á hverjum tíma er það sem hefur skilað Liv þeim árangri sem hún hefur náð sem stjórnandi.

“Það kemur ekkert af sjálfu sér. Ertu að taka aukaæfingu þegar þjálfarinn er ekki að horfa?”.

Á síðasta ári var starfsemi ORF Líftækni skipt upp í tvö sjálfstæð fyrirtæki, ORF Líftækni og BIOEFFECT. Liv var áður forstjóri beggja eininga undir formerkjum ORF Líftækni. BIOEFFECT þróar, framleiðir og selur húðvörur. Sérstaða varanna byggir á virka efninu EGF sem framleitt er með plöntu-líftækni í byggi. Fyrirtækið er á afar áhugaverðri og framsækinni vegferð í sölu- og markaðsstarfi sem er sérgrein Livar og verður spennandi að fylgjast með vexti fyrirtækisins á næstu árum.

Uppselt var á þetta fyrsta Viðskiptaspjall Kjarval & FVH og þökkum við fyrir frábærar viðtökur. Viðskiptaspjall Kjarval & FVH verður haldið mánaðarlega fram að næsta vori. Félagsfólk FVH hefur forgang á viðburði félagsins og hvetjum við áhugasama, óháð menntun, til að skrá sig í félagið og tryggja sér sæti á viðburði.

Ertu með hugmynd að viðmælanda í viðskiptaspjallið?

Endilega sendu okkur línu á fvh@fvh.is

Hluti stjórnar FVH með Liv eftir vel heppnað viðskiptaspjall. Frá vinstri: Hulda, Liv, Elka Ósk, Anna Margrét og Gísli Már



110 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page