Annað viðskiptaspjall FVH Félag viðskipta- og hagfræðinga og Vinnustofa Kjarval fór fram í gær.
Viðmælandin í þetta skipti var Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir sem er flestum í íslensku viðskiptalífi kunnug, en hún hefur verið áberandi í fjárfestingum og óhætt að segja að stundum hafi gustað um hana.
Svanhildur er alin upp af einstæðri móður sem hún segir að sé duglegasta kona sem hún þekkir, hún var stærðfræðikennari og hvatti Svanhildi alltaf áfram og náði að sannfæra hana um að hún væri bara virkilega góð í stærðfræði. Hún stefndi á að verða læknir og kláraði MR með það að leiðarljósi, hún hinsvegar skipti um skoðun á skrifstofunni þegar hún var að skrá sig í námið og valdi viðskiptafræði fram yfir. Hún starfaði síðan hjá nokkrum fjármálastofnunum á Íslandi eftir námið sem áttu það nær allar sameiginlegt að sameinast öðrum fjármálastofnunum meðan hún var þar starfsmaður.
Svanhildur fór ítarlega yfir Skeljungsmálið, rannsóknina og loks niðurfellingu þess máls ásamt baráttunni um stjórn VÍS. Hún er í dag eigandi Bestseller ásamt manni sínum Grími Garðassyni og segist hafa ótrúlega gaman að því að vera að sýsla með neytendavöru sem sé skemmtileg- tískuvarning vs. bensín.
Það var virkilega gaman að hlusta á Svanhildi, hún var einlæg og ósérhlífin í frásögn sinni og dró margt fram í dagsljósið um margumtöluð mál sem ekki hefur komið fram í fjölmiðlum. Þrátt fyrir að umræðuefnið og spurningarnar væru ekki alltaf einfaldar tókst henni að gera spjallið létt og skemmtilegt- svo skemmtilegt að við fórum töluvert fram yfir tíma án þess að taka eftir því.
Viðskiptaspjallið er lokaður viðburður fyrir félagsmenn FVH og meðlimi Kjarval. Við eigum að minnsta kosti eftir að halda eitt í viðbót árið 2024 og miða við hit-listann þá eigum við von á enn einni neglunni á næsta viðburði.
Texti ritaður af Telmu Eir, varaformanni FVH
Comments